Karfa

Saga Geisla

Geisli var stofnaður 10. október 1973 af Þórarni Sigurðssyni og eiginkonu hans Guðrúnu R. Jóhannsdóttur. Það gerðist í framhaldi af því þegar Viðlagasjóður hætti afskiptum sínum af almennri verktakastarfsemi s.s. rafmagnsvinnu o.þ.h. hér í bæ haustið 1973, eftir að hreinsun bæjarins var að mestu lokið á ösku og þeim húsarústum sem eldgosið á Heimaey hafði skilið eftir sig. Fyrirtækið hóf rekstur í svokölluðu "Keleríi" en það er bakhús sem tilheyrði Vélsmiðjunni Magna, en þar hafði verið starfrækt málmsteypa og blikksmiðja. "Keleríið" er sunnan megin við Strandveginn, eða bak við þar sem nú er heildverslun H. Sigurmundssonar. Plássið sem fyrirtækið hafði var c.a. 20 fermetrar að stærð. Í upphafi voru starfsmennirnir 3 og komu þeir úr Reykjavík, og voru fyrrum starfsmenn Viðlagasjóðs, en fljótlega var fyrsti Vestmannaeyingurinn ráðinn sem var Magnús Bergsson og starfar hann enn hjá Geisla. Fyrsti lærlingurinn var Sveinn Sveinsson og annar fylgdi strax á eftir en það var Pétur Jóhannsson, en fljólega fór hann að taka meiri þátt í rekstrinum og hefur haldið utan um hann allar götur síðan.


Starfsemi Geisla var strax í upphafi almenn rafmagnsvinna, þjónusta við bátaflotann, viðgerðir á fiskileitar- og siglingatækjum ásamt kæli- og frystikerfum og svo er enn í dag. Starfsemin í "Keleríinu" vatt hratt uppá sig og fljótlega var það gjörsamlega sprungið, þannig að árið 1975 var ráðist í að byggja nýtt húsnæði við Flatir 29,  sem var um 300fm. að stærð. Starfsemin fluttist þangað í nóvember 1976 og við það efldist fyrirtækið mjög. Árið 1980 opnaði Geisli svo verslun sem sérhæfði sig í sölu á raftækjum. Við þessa viðbót leið ekki á löngu þar til  húsnæðið var aftur sprungið og árið 1986 var ráðist  í að stækkað húsnæðið um 150 fm. og var þá húsnæðið alls 450 fm. Árið 2006 sameinaðist Eyjaradíó Geisla, við þá sameiningu bættust við viðgerðir á rafeindatækjum s.s. sjónvörpum o.fl. Í september 2008 var svo hafist handa við að byggja nýtt húsnæði við Hilmisgötu 4, sem er um 1000fm. að flatarmáli. Árið 2009 keypti Geisli svo gjafavöruverslunina Callas og hófst þá sala á gjafavöru í nýja húsnæðinu, sem var opnað með pompi og prakt 10.10.2009.  En í nýja húsnæðinu er nú öll starfssemi Geisla. Í dag eru starfsmenn Geisla 28 talsins verslunarfólk, skrifstofufólk, rafvirkjar, rafeindavirkjar og tölvunarfræðingar.

Árið 1981 stofnaði Geisli ásamt Vélsmiðjunum Magna og Völundi, Skipalyftuna hf. og hefur verið náið samstarf milli Geisla og Skipalyftunnar allar götur síðan.

Eins og sést hefur 10. október verðið fyrirferðarmikill í starfsemi Geisla frá upphafi enda fæðingadagur Guðrúnar R. Jóhannsdóttur eiganda Geisla